1. maí 2021

Image

Kæru félagsmenn STH, já það eru fordæmalausir tímar og fjölmennar baráttusamkomur í tilefni 1. maí ekki í boði. Þið hafið öll staðið ykkur eins og hetjur í þessum heimsfaraldri og aðlagað störf ykkar að breyttu vinnuskipulagi og aðstæðum. Í dag fögnum við tímamótum með innleiðingu styttingar vinnuvikunnar fyrir vaktavinnufólk.

Framundan er áframhaldandi bárátta við að ná fram að fullu markmiðum kjarasamnings meðal annars um vinnutímastyttingu sem er gríðarlega mikilvægt tímamóta samfélagslegt lífsgæðamál. Barátta launafólks um bætt kjör og kjarasamningsbundin réttindi er þrotlaus og í raun óendanleg, árangurinn kemur ekki að sjálfu sér. Það fengu stéttarfélög bæjarstarfsmanna að kynnast í aðdraganda núgildandi kjarasamninga.


Til að ná fram kjarasamningum þurfti að blása til fjölmenns baráttufundar í Háskólabíói og kjósa um verkfallsaðgerðir í kjölfarið. Eðlileg krafa launafólks um að kjarasamningur tæki við af kjarasamningi náði ekki fram að ganga og háleit markmið um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga voru víðs fjarri. Í dagsins önn stöndum við vaktina saman, félagsmenn STH og kjörnir trúnaðarmenn félagsins því kjarasamningsbundnum réttindum þarf oftar en ekki að fylgja eftir á vinnustöðum.

Við búum í landi alsnægta en samfélagslega stöndum við á ákveðnum krossgötum. Kakan er bökuð og skreytt en henni er ekki jafnt skipt milli þegnanna, þrátt fyrir að auðlindir þjóðarinnar séu hennar sameign. Nú á kosningaári ríkir verkalýðspólitísk samstaða um þá kröfu að við öll getum notið mannsæmandi lífskjara á Íslandi, það er nefnilega nóg til.

Kæru félagar STH, ég hvet ykkur til þátttöku á baráttudeginum á Facebook https://www.facebook.com/events/1761084860737370 og til áhorfs á sérstaka sjónvarpssdagskrá heildarsamtaka launafólks sem send verður út af RÚV í tilefni dagsins.

Njótið vel og til hamingju með daginn.

Karl Rúnar Þórsson
formaður STH

Starfsmenntasjóður

Fylltu út formið til að sækja um