Endurskoðun á starfsmatskerfinu SAMSTARF

Starfsmatskerfið byggir á bresku starfsmatskerfi, Single Status Job Evaluation, sem innleitt var hér á landi árið 2002. Frá upptöku kerfisins hefur það aldrei verið uppfært til samræmis við þróun þess í Bretlandi. Það var því orðið mjög aðkallandi að fara í þessa vinnu til að tryggja áframhaldandi notkun og trúverðugleika kerfisins við að meta störf innan sveitarfélaganna með réttmætum og áreiðanlegum hætti og stuðla þannig að jafnræði og jafnrétti í launasetningu.
Starfsmatið er samstarfsverkefni þeirra sveitar- og stéttarfélaga sem um það hafa samið í kjarasamningum og þau mynda með sér starfsmatsnefndir, annars vegar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hins vegar hjá Reykjavíkurborg. Saman mynda nefndirnar eina faglega samráðsnefnd sem tekur stefnumótandi ákvarðanir varðandi þróun kerfisins og önnur fagleg málefni.
Sett var á laggirnar Verkefnastofa starfsmats sem rekin er af Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að vinna tillögur að uppfærslu og endurbótum á starfsmatskerfinu til samræmis við þá þróun sem orðið hefur á því í Bretlandi. Endurskoðun fól í sér breytingar á spurningakerfi, þrepa- og þáttaskilgreiningum og túlkun einstakra þátta kerfisins.

Framkvæmdanefnd starfsmatsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðsemjenda þess, sem í sitja þrír fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tveir fulltrúar frá BSRB og einn fulltrúi frá ASÍ, hafa fjallað um rökstuddar tillögur starfsmatssérfræðinga verkefnastofu og tók á grundvelli þeirra og upplýsinga frá sveitarfélögunum um inntak starfa, ákvörðun um breytingar á mati einstakra starfa. Í endurskoðunarvinnunni var kallað eftir starfslýsingum frá öllum sveitarfélögunum. Skýrt kom í ljós við yfirferð þeirra að nú eru almennt gerðar meiri kröfur um gæði þjónustu en áður.
Við kostnaðarmat gildandi kjarasamninga sambandsins og starfsmatsfélaga var ógerlegt að meta fyrirfram hugsanlegan kostnað af endurskoðun starfsmatsniðurstaða. Þær upplýsingar lágu þó fyrir frá höfundum kerfisins í Bretlandi að mjög litlar breytingar hefðu orðið á starfsmatskerfinu frá því það var tekið í notkun hér á landi árið 2002. Með þær upplýsingar í farteskinu gengu samningsaðilar út frá því að kostnaður við endurskoðun kerfisins yrði óverulegur. Þegar farið var að vinna að endurskoðuninni kom hins vegar annað í ljós. Eitt og annað hafði tekið breytingum á þeim 13 árum sem liðin eru frá innleiðingu starfsmatskerfisins, sem nauðsynlegt var að leiðrétta. Samband íslenskra sveitarfélaga metur að breytingar á starfsmatskerfinu leiði til 3,3% hækkunar launakostnaðar meðal starfsmatsfélaga að jafnaði hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur.
Framkvæmdanefnd starfsmatsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og þeirra stéttarfélaga innan BSRB og ASÍ, sem samið hafa um starfsmat er sammála um að launabreytingar vegna endurskoðunar starfsmatskerfisins verði framkvæmdar með eftirfarandi hætti.

  • Kjarasvið sambandsins sendir sveitarfélögum hverju og einu allar breytingar vegna kerfisbundinnar endurskoðunar starfsmatskerfisins á útgefnum störfum ásamt leiðbeiningum um framkvæmd. Einnig verða breytingar á staðbundnum starfsmatsniðurstöðum sendar til viðkomandi sveitarfélaga. Sömu gögn verða afhent viðkomandi stéttarfélögum.
  • Sveitarfélög yfirfari og breyti stiganiðurstöðu starfa sinna til samræmis við þær breytingar sem niðurstaða endurskoðunar á starfsmatskerfinu og starfsmatsniðurstöðum fela í sér.
  • Breytingar á starfsmati sem leiða til breytinga á launaröðun vegna endurskoðunarinnar taka gildi frá 1. maí 2014 og leiðréttast samkvæmt launatöflu II með gildandi kjarasamningi. Er þetta í samræmi við framkvæmd fyrri leiðréttinga á starfsmati og er óháð því hvort breytingin kemur til framkvæmda eftir að nýr kjarasamningur tekur gildi.
  • Miða skal við að breyting á launaröðun  starfsmanna  samkvæmt endurskoðuðu starfsmati komi til framkvæmda 1. ágúst, en þó eigi síðar en 1. september  2015.
  • Í ljósi þess að um töluverða vinnu er að ræða er sveitarfélögum gefið svigrúm til 1. október 2015 til að framkvæma afturvirkar launabreytingar starfsmanna. Sveitarfélög eru þó hvött til að ljúka leiðréttingum eins fljótt og kostur er.
    Lækki starf í kerfisbundinni endurskoðun skal starfsmaður halda óbreyttri launaröðun en nýir starfsmenn taka laun samkvæmt gildandi starfsmati.

Starfsmenntasjóður

Fylltu út formið til að sækja um