Það er skýr andstaða við einkavæðingu heilsugæslustöðva að mati BSRB

Heilsa fólks og heilbrigði getur aldrei orðið eins og aðrar vörur á markaði. Því leggst stjórn BSRB alfarið gegn áformum heilbrigðisráðherra um einkavæðingu heilsugæslustöðva. Það ætti, að mati BSRB, að vera skýrt markmið stjórnvalda að allur mögulegur „hagnaður“ af rekstri heilbrigðisþjónustu renni beint til frekari uppbyggingar þjónustunnar en ekki í vasa einkaaðila.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hyggst Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynna breytingar á fyrirkomulagi heilsugæslunnar í dag. Áformað er að opna þrjár nýjar heilsugæslustöðvar til viðbótar við þær sautján sem nú eru starfandi. Til stendur að stöðvarnar verði einkareknar, í meirihlutaeigu þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem þar starfa.

BSRB fagnar áformum um uppbyggingu heilsugæslunnar, sem er mikilvægur þáttur í íslenska heilbrigðiskerfinu. Bandalagið telur eðlilegt að nýjar heilsugæslustöðvar verði fjármagnaðar af almannafé eins og þær sem fyrir eru, og starfi samkvæmt sama fyrirkomulagi.

Íslenskur almenningur er að stærstum hluta andvígur einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, en fylgjandi félagslegu heilbrigðiskerfi, eins og ítrekaðar skoðanakannanir hafa sýnt fram á. Í rannsókn sem Rúnar Vilhjálmsson prófessor gerði í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í fyrra kom fram að rúmlega 80% svarenda vilja að hið opinbera komi fyrst og fremst að rekstri heilsugæslustöðva. Aðeins um 1% töldu slíkum rekstri best fyrir komið hjá einkaaðilum.

Stjórn BSRB leggst alfarið gegn áformum heilbrigðisráðherra um einkavæðingu heilsugæslustöðva og kallar eftir opinberri umræðu áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar.

Hér að neðan má sækja ályktun stjórnar BSRB vegna málsins. Hún var gerð 7. desember síðastliðinn, en er enn í fullu gildi.

http://bsrb.is/um-bsrb/frettir/frett/2016/02/25/Skyr-andstada-almennings-vid-einkavaedingu-heilsugaeslustodva/

Starfsmenntasjóður

Fylltu út formið til að sækja um