Ávarp formanns STH á 1. maí 2023

Image

Kæru félagsmenn Starfsmannafélags Hafnarfjarðar og allir Hafnfirðingar, til hamingju með 1. maí baráttudag launafólks.

Það er nöturlegt til þess að hugsa að á morgni 1. maí árið 2023 sé Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, STH statt í „auga stormsins“ ásamt bæjarstarfsmannafélögum um allt land. Í miðri kjaradeilu við sveitarfélögin þar sem tekist er á um kröfuna; „sömu laun fyrir sömu störf.“ Kjaradeilan snýr að sameiginlegri kröfu félaganna um að starfsfólk sveitarfélaga sem vinna m.a. á leikskólum, grunnskólum, sundlaugum, íþróttamiðstöðvum og þjónustu við fatlað fólk fái sömu laun fyrir sömu eða sambærileg störf innan sömu stofnunar eða sveitarfélags og aðrir hafa þegar fengið.

Atkvæðagreiðsla vegna fyrstu aðgerða standa nú yfir hjá félagsfólki okkar sem starfa í grunnskólum og frístundaheimilum bæjarins og er þátttaka góð. Talsvert skortir upp á að bæjaryfirvöld standi nægilega vel að starfsmannamálum þessa hóps sem starfar í grunnskólanum. Þessi starfsmannahópur stóð vaktina samviskusamlega með börnunum okkar í covidinu. Álagið hefur aukist hjá starfsmönnum og verkefnin þyngst í takt við fjölbreytilegri og þyngri nemendahóp.

Markvissa fræðslu, menntun og símenntun til ófaglærðra starfsmanna sveitarfélagsins og betri kjör skortir sem myndi draga úr starfsmannaveltu, bæta mönnum og auka gæði þjónustunnar, sem væri klárlega jákvæður samfélagslegur ávinningur. Hafnarfjarðarbær hefur framselt samningsrétt sinn til samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og í STARFSMATI horft til landsbyggðarinnar fremur en Reykjavíkur og hér misst jarðtenginguna við starfsmenn sína. Félagsmenn STH nærast ekki á átökum en láta heldur ekki allt yfir sig ganga. Félagsmenn STH vilja fyrst og fremst sömu laun fyrir sömu störf og að sanngjarnir kjarasamningar náist sem halda í við verðbólgu, síhækkandi vexti og almenna dýrtíð.

 En hvar erum við eiginlega stödd í þessu meinta dásemdar hamingju samfélagi okkar? Við vitum af undirmönnun, álagi og flótta frá störfum í heilbrigðis og umönnunarkerfunum okkar.  Nýbyggingar duga þar skammt því þær veita ekki þjónustuna. Opinber þjónusta snýr fyrst og fremst að fólki sem vinnur fyrir fólk og þjónustar samborgarana í sameiginlegum kerfum og stofnunum samfélagsins. Öflug almannaþjónusta er mikilvægur hluti af tannhjóli atvinnulífsins og opinber vinnumarkaður og almennur eru ekki andstæðingar heldur nánir bandamenn í því verkefni að láta hjól atvinnulífsins snúast.

Verkalýðshreyfingin kallar eftir heilbrigðum húsnæðis- og leigumarkaði sem er réttlætis- og mannréttindamál sem varðar alla landsmenn. Stjórnvöld verða að bregðast við vaxandi afkomuvanda íslenskra heimila vegna verðbólgu, síhækkandi vöxtum og vaxandi dýrtíð. Verkalýðshreyfingin krefst þess að þjóðin fái notið arðsins af sameiginlegum auðlindum landsins og látið sé af forgangsröðun sem lýsir sér í sérhagsmuna gæslu og undirgefni við fjármagnseigendur sem bæði særir réttlætiskennd almennings og heggur að undirstöðum samfélagsins.

Réttlæti-jöfnuður-velferð er sameiginleg yfirskrift baráttudags verkalýðshreyfingarinnar í ár sem eru þau gildi sem verkalýðshreyfingin hefur lagt til grundvallar í starfi sínu gegnum árin.  Þau fela í sér baráttu fyrir; réttindum og bættum aðbúnaði  launafólks, jafnrétti, almannatryggingum, fæðingarorlofi, símenntun og baráttu fyrir jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Allt hefur þetta stuðlað að því að fólk getur betur búið við afkomuöryggi og lifað lífi sínu með reisn.  Að þessum mikilvægu gildum er nú sótt, sem sýnir okkur hversu mikilvæg barátta verkalýðshreyfingarinnar er.

Til hamingju með daginn og njótið hans vel.  

Karl Rúnar Þórsson formaður STH

Starfsmenntasjóður

Fylltu út formið til að sækja um