Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra lýsti áhyggjum sínum á Alþingi í gær af því að embættismenn og ríkisstofnanir væru að ánetjast utanlandsferðum í tengslum við aðildarviðræðurnar við ESB. Framkvæmdastjóri BSRB segir málflutninginn ómaklegan og ekki sæmandi manni í hans stöðu.
„BSRB þykir mjög miður hvernig Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra talar um opinbera starfsmenn úr ræðustóli Alþingis. Að halda því fram að embættismenn hins opinbera séu að ánetjast ferðalögum og sæki það hart að komast sem oftast út fyrir landssteinana til þess eins að fá greidda dagpeninga er mjög ómaklegt,“ segir Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB, um málflutning Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á Alþingi í gær.
Þar lýsti innanríkisráðherra áhyggjum sínum á Alþingi í gær af því að embættismenn og starfsmenn ríkisstofnana væru að ánetjast utanlandsferðum í tengslum við aðildarviðræðurnar við ESB. Verið var að ræða IPA Evrópustyrki á þinginu þegar þingmaður Framsóknar vildi vita skoðun ráðherra á þeim. Ögmundur sagði þá að hann hefði miklar áhyggjur af stofnanakerfinu og að embættismenn færu sífellt fleiri og lengri ferðir til Brussel á kostnað ríkisins. Fólkið ánetjaðist þannig Evrópusambandinu enda heillandi að fara fleiri og fleiri ferðir og fá dagpeninga í hvert skipti.
„Núverandi ríkisstjórn sóttist eftir aðild að ESB en ekki opinberir starfsmenn sem eru væntanlega aðeins að vinna vinnuna sína eins vel og þeir geta. Sú vinna felst m.a. í því að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar og undir það falla vissulega fundir erlendis vegna umsóknar um aðild að ESB. Málflutningur Ögmundar er því algerlega óásættanlegur, sérstaklega komandi frá manni í hans stöðu,“ segir Helga Jónsdóttir jafnframt.