Sextán aðildarfélög BSRB hafa nú boðað til verkfallsaðgerða sem hefjast 9. mars. Aðgerðirnar eru misjafnar milli félaga og milli hópa. Sumir fara í verkföll á ákveðnum dögum á meðan aðrir verða í ótímabundnum verkföllum frá upphafi.
Til að auðvelda aðildarfélögunum og félagsmönnum þeirra að átta sig á umfangi aðgerðanna og hvenær verkföll eru boðuð hefur BSRB útbúið mynd sem sýnir hvenær aðgerðir eru boðaðar og hjá hvaða hópum.
Við hvetjum trúnaðarmenn og aðra félagsmenn aðildarfélaga sem eru á leið í aðgerðir til að deila skjalinu með sínu samstarfsfólki til að tryggja að allir átti sig sem best á því hvenær verkfallsaðgerðir munu ná til þeirra. Þá væri einnig gott að prenta út skjalið og hengja upp á kaffistofum eða öðrum stöðum þar sem starfsmenn koma saman til að allir séu meðvitaðir um aðgerðirnar framundan.
Kjarasamningsviðræður hafa haldið áfram undanfarna daga en lítið miðar í samkomulagsátt. Kjarasamningar félaganna hafa verið lausir frá 1. apríl 2019, eða í nærri 11 mánuði. Mikill hugur er í félagsmönnum aðildarfélaganna, sem samþykktu verkfallsboðunina með yfirgnæfandi meirihluta.
Félagsmenn í eftirtöldum félögum munu taka þátt í verkfallsaðgerðunum:
- Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi
- Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum
- FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu
- Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
- Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
- Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu
- Sjúkraliðafélag Íslands
- Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu
- Starfsmannafélag Fjallabyggðar
- Starfsmannafélag Fjarðabyggðar
- Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
- Starfsmannafélag Húsavíkur
- Starfsmannafélag Kópavogs
- Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
- Starfsmannafélag Suðurnesja
- Starfsmannafélag Vestmannaeyja
Boðuðum verkfallsaðgerðum má skipta í tvo hluta. Annars vegar mun þorri félagsmanna hjá ríkinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg leggja niður störf á ákveðnum dögum. Þessi hópur mun leggja niður störf dagana 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. og 26. mars og 31. mars og 1. apríl.
Í hinum hlutanum eru smærri hópar starfsmanna sem verða í ótímabundnu verkfalli frá og með 9. mars. Í þeim hópi eru meðal annars starfsmenn í grunnskólum og leiðbeinendur á frístundaheimilum á nær öllu höfuðborgarsvæðinu auk Akraness. Að óbreyttu má því reikna með að frístundaheimilin verði lokuð frá upphafi verkfalls þar til samningar takast. Í þeim hópi eru einnig starfsmenn hjá Skattinum og sýslumannsembættum um allt land.
Ótímabundið allsherjarverkfall frá 15. apríl
Þessar aðgerðir munu halda áfram fram í dymbilviku, en hafi samningar ekki tekist fyrir 15. apríl munu félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum fara í ótímabundið allsherjarverkfall þar til samningar hafa tekist.
Allt þetta má skoða betur á mynd sem sýnir aðgerðaráætlun aðildarfélaga BSRB. Hægt er að hlaða henni niður sem PDF-skjali hér.