Helluhraun 14 220 Hafnarfjörður

Helluhraun 14 220 Hafnarfjörður

Helluhraun 14 220 Hafnarfjörður

Opið bréf til Rósu bæjarstjóra og Valdimars formanns bæjarráðs Hafnarfjarðar Sömu laun fyrir sömu störf og kjarasamning strax

Opið bréf til Rósu bæjarstjóra og Valdimars formanns bæjarráðs Hafnarfjarðar

Sömu laun fyrir sömu störf og kjarasamning strax

Gerðu frábæra samninga, náðu sátt og skapaðu traust, það er lykil markmið sem báðir aðilar kjarasamninga eiga að setja sér, samanber bók Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara um samningatækni. Deila STH og 10 annarra stéttarfélaga bæjarstarfsmanna sem starfa innan BSRB er í hörðum hnút og hafa verkfallsaðgerðir verið samþykktar og kosningar um fleiri aðgerðir eru að hefjast hjá okkur í Hafnarfirði og víðar.

Það er sjaldnast einn þegar tveir deila en fullyrða má að báðum samningsaðilum hafi mistekist hrapalega í síðustu kjarasamningum. Því komið hefur á daginn að þeir samningar hafa hvorki skapað traust né sátt milli aðila, heldur skilið bæjarstarfsmannahluta BSRB eftir með 25% lægri launahækkanir á ársgrundvelli miðað við kjarasamninga samanburðarhóps og verður BSRB hópurinn af um 140.000 krónum sem aðrir hafa þegar fengið í launaumslagið. Þetta er mismunun sem ber að leiðrétta í nýjum kjarasamningi.

Reiðin kraumar svo enn frekar í hópi okkar félagsmanna þar sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu láta það viðgangast að bjóða sínu fólki upp á mein gallað starfsmat þar sem starfsfólk til dæmis í Hafnarfirði og athugið staðsett á sama atvinnusvæði og Reykjavík er launasett með öðrum hætti í STARFSMATI heldur en samanburðarhópurinn sem starfar í höfuðborginni.

Ofan á allt annað þurftu bæjarstarfsmannafélögin í síðustu kjarasamningum að borga með sér úr sjóðum sinna félagsmanna til að ná inn svonefndum Félagsmannasjóði sem tilkominn var vegna jöfnunar lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera markaðarins. Þetta þarf að endurskoða.

 Nú aðra kjarasamninga í röð standa félagsmenn Starfsmannafélags Hafnarfjarðar frammi fyrir því að kjósa um og hóta verkfallsvopninu til að knýja fram réttláta kjarasamninga við Samband íslenskra sveitarfélaga og Hafnarfjarðarbæ. Hafa aðgerðir nú þegar verið samþykktar í grunnskólum og frístund. Fjarlægðin milli samninganefndar sveitarfélaga og fólksins, bæjarstarfsmanna sem á lágmarkslaunum, veita ómissandi þjónustu fyrir íbúa sveitarfélagsins, er meiri en eðlilegt getur talist.

Rósa og Valdimar, ábyrgðin er líka ykkar, það dugar ekki að útvista kjarasamninga um kaup og kjör fólksins ykkar og standa svo bara hjá. Það verður að sjá til þess að samtal eigi sér stað við samningaborðið með það að markmiði að kjarasamningar náist. Þannig getum við öll, samfélagið og félagsmenn STH haldið áfram með lífið og án kjarasamningslegrar óvissu. Sömu laun fyrir sömu störf og kjarasamning strax, er til of mikils mælst?

Karl Rúnar Þórsson,
formaður STH

Deila frétt