Verkfallsmál
Kæru félagsmenn STH.
Eins og staðan er í dag á fimmtudagsmorgni 5. mars, þá erum við í STH ásamt flest öllum stéttarfélögum bæjarstarfsmanna að undirbúa okkur fyrir verkfallsaðgerðir næstkomandi mánudag. Samninganefndin er boðuð í dag aftur til fundar hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilunni við sveitarfélögin. Þrátt fyrir það fundarboð er ekkert annað í stöðunni en áframhaldandi undirbúningur aðgerða.
Hér á þessu svæði á heimasíðu STH er að finna upplýsingar um verkfallsaðgerðir og stöðu mála. Að sjálfsögðu vonumst við til þess að ekki komi til aðgerða og deilan verði leyst með samningi. Saman höfum við sjö þúsund bæjarstarfsmenn mikið vægi í opinberri þjónustu sveitarfélaganna og saman erum við öflug. Við látum aldrei viðsemjandan sveitarfélögin misbjóða okkur við samningaborðið. Við hins vegar krefjumst kjarasamninga strax.
Með baráttukveðju,
Karl Rúnar Þórsson
formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar
Nýjar fréttir af verkfallsmálum

Kjarasamningur undirritaður og verkfalli aflýst
Ellefu aðildarfélög BSRB og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu nýjan kjarasamning

Samningaviðræðum lokið án árangurs
Kæru STH félagar, samningaviðræðum lauk í nótt um kl. 1:30
Spurt og svarað um verkfall
Kjarasamningar við sveitarfélögin/Samband íslenskra sveitarfélaga hafa verið lausir frá 31. mars 2019, eða í næstum því heilt ár, Mjög hægt hefur miðað samningaviðræðum.
Stór mál á borðinu
Við höfum reynt til hins ítrasta að ná samningum. Enn hefur ekki náðst niðurstaða í öll stóru málin:
- Launasetning félagasmanna
- Jöfnun launa milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almenna markaði
- Styttingu vinnuvikunnar fyrir þá sem vinna dagvinnu og vaktavinnu
- Útfærslu launaþróunartygginar
- Auk annarra mikilvægra mála s.s. orlofsmála, fræðslumála og hækkun greiðslna í styrktar og sjúkrasjóð ofl.
- Við höfnum því að okkar félagsmönnum sé mismunað í launaþáttum undir slíkan samning er aldrei hægt að skrifa
Við höfum fengið nóg
Skemmst er frá því að segja að viðræður um alla þessa þætti hafa tekið gífurlegan tíma og þrátt fyrir að hafa vera vísað ríkissáttasemjara til verkstjórnar. Það er engu líkara en að viðsemjendur séu ákveðnir í að þreyta okkur þar til við gefumst upp, það mun hins vegar ekki gerast.
Líklegt er að laun verði dregin af öllum félagsmönnum sem verkfall nær til þá daga sem verkfall stendur yfir.
Félagsmenn á undanþágulista sem vinna í verkfalli eiga rétt á launum fyrir þann tíma sem þeir vinna.
Hver og einn félagsmaður þarf að fara fram á að fá greitt ef hann hefur verið starfandi samkvæmt undanþágulista.
Hefjist verkfall geta félagsmenn sótt um verkfallsbætur fyrir lok hvers mánaðar. Sérstök umsóknarsíða verður útbúin á heimasíðu stéttarfélagsins fyrir mánaðarmót. Til að geta sótt um verkfallsbætur þurfa félagsmenn að leggja fram síðasta launaseðil. Greiddar verkfallsbætur eru 15.000 krónur á dag fyrir 100% starf og taka mið af starfshlutfalli félagsmanna.
Meginreglan sú að réttarsamband starfsmanna og atvinnurekanda fellur niður á meðan á verkfalli stendur og eru aðilar ekki bundnir af ákvæðum ráðningarsamnings á þeim tíma sem verkfall varir. Þannig falla launagreiðslur niður og skyldur starfsmanns til að inna af hendi vinnu sömuleiðis.
Þegar verkfalli hins vegar lýkur vakna skyldur aðila á ný og er mönnum skylt að koma þá strax til vinnu og atvinnurekanda jafnframt skylt að taka við starfsmönnum sínum í vinnu. Hins vegar hefur almennt verið litið svo á að verkföll hafi ekki áhrif á ávinnslu réttinda. Þannig telst sá tími sem fólk er í verkfalli til vinnutíma þegar réttur viðkomandi er reiknaður út.
Þegar félagsmaður er í orlofi þá telst hann vera í verkfalli. Hann fær því ekki laun frá vinnuveitanda og orlofstaka hans fellur niður á þeim tíma sem verkfall stendur.
Ef félagsmaður er á fyrirframgreiddum launum og fyrirfram ákveðin og skipulögð orlofstaka hefst áður en verkfall skellur á telst hann vera í orlofi.
Vinnuveitanda er ekki heimilt að kalla til vinnu félagsmenn sem hafa verið í orlofi eða vaktafríi eftir að verkfall er hafið, ekki frekar en aðra félagsmenn, nema þá ef þeir eru á undanþágulista eða eru kallaðir til vinnu samkvæmt ákvæði 20. gr. laga nr. 94/1986. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort starfsmaður hefur hafið orlof eða hvort hann hugðist hefja það á verkfallstímabilinu.
Það má ekki bæta í mönnun vegna verkfalls. Aðrir starfsmenn eiga ekki að fá aukin verkefni, utan þeirra er þeir sinna öllu jöfnu. Litið hefur verið svo á að með því að fjölga öðrum starfsmönnum sé verið að láta þá ganga í störf félagsmanna.
Æðstu stjórnendur geta gengið í öll störf í verkfalli þar sem þeir bera ábyrgð á rekstri stofnunarinnar. Þannig má t.d. skólastjóri ganga í störf húsvarðar og opna skólabyggingu fyrir nemendur, svara í síma o.s.frv.
Í verkfalli gildir fyrirliggjandi vaktaskýrsla. Breytingar á henni, þar með taldar aukavaktir eða breyttar vaktir eru ekki heimilar nema til komi samþykkt undanþágunefndar sem stéttarfélag skipar.
Engar breytingar verða á högum þeirra sem eru í fæðingarorlofi. Launagreiðslur félagsmanna í fæðingarorlofi koma frá Fæðingarorlofssjóði og hafa því ekkert með verkfall félagsmanna sem starfa samkvæmt kjarasamningi félagsins við samningsaðila að gera.
Um félagsmenn sem eru í tímavinnu gildir sama regla og ef um fastráðinn starfsmann væri að ræða. Ef félagsmaður er skráður í starfshlutfall eða á vaktarúllu, gildir fyrirliggjandi vaktaskýrsla og er félagsmaður þá í hópi þeirra sem starfað geta á öryggislista (undanþágulista). Ef félagsmaður í tímavinnu er ekki skráður á vaktaskýrslu telst hann vera í verkfalli líkt og aðrir og kemur því ekki til greina við störf samkvæmt undanþágulista.
Laun í námsleyfi falla niður í verkfalli og verður félagsmaður að taka leyfið út seinna.
Undanþágulisti (einnig nefndur öryggislisti) er listi yfir störf sem undanþegin eru verkfalli. Á honum er tilgreindur sá fjöldi félagsmanna, starfsheiti sem skal vera við störf í verkfalli á hverri stofnun. Tilgangur listanna er að tryggja „nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu“ (eins og segir í lögum 94/1986) og koma í veg fyrir skaða.
Í vaktakerfum skal fara eftir þeirri vaktaskýrslu sem liggur fyrirþegar valinn er starfsmaður til þess að vinna í verkfalli samkvæmt undanþágulista. Séu fleiri skráðir á vakt en tiltekið er á undanþágulista ákveður stjórnandi hvaða starfsmaður vinnur vaktina.
Samkvæmt 20. grein laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 segir um heimild til að kalla starfsmenn til vinnu:
Sé verkfall hafið er heimilt að kalla starfsmenn, sem eru í verkfalli, tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðarástandi.
Samkvæmt 21. grein sömu laga segir um undanþágunefnd:
„Nefnd tveggja manna ákveður hverjir skulu kvaddir til starfa skv. 20. gr. Annar nefndarmanna skal tilnefndur af því stéttarfélagi sem á í verkfalli en hinn af viðsemjanda þess. Ákvarðanir um kvaðningu til vinnu skulu teknar með atkvæðum beggja nefndarmanna og eru þær endanlegar.“
Undanþágunefnd fjallar um einstök störf en ekki einstök verk sem starfsmenn taka að sér í verkfalli.
Ef starfsmaður í verkfalli er kallaður til vinnu vegna undanþágu sem samþykkt hefur verið að stéttarfélaginu getur hann ekki neitað að koma til vinnu.
Starfsmaður í vinnu á undanþágu fær greidd laun.
Eftirtalin starfsheiti eru undanþegin verkfallsheimild og eru að störfum.
Sjá hér:
https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=42cd3990-1f18-496d-b322-97f495be2007
Félagsmanni sem verkfall nær ekki til er ekki heimilt að neita að koma til vinnu í verkfalli. Honum ber að sinna boði yfirmanns um að koma til starfa við þessar aðstæður sbr. almenn ákvæði laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.
Túlkun okkar er sú að ef félagsmaður sem á að mæta samkvæmt undanþágulista veikist þá eigi að greiða honum laun líkt og um unnin dag væri að ræða. Þessi túlkun byggist á því að umræddum starfsmanni er ætlað að gangi í þau störf sem eru á undanþágulista, þ.e. viðkomandi væri við störf í verkfalli ef ekki kæmi til veikinda.
Á meðan á verkfalli stendur falla meginskyldur ráðningarsamningsins niður. Þannig mega aðilar ekki framkvæma ákvæði ráðningarsamningsins á meðan á því stendur. Félagsmaður fær því ekki laun á meðan verkfall varir og heldur ekki veikindalaun, þrátt fyrir að veikindi hafi verið tilkomin áður en til verkfalls kom.
Félagsmenn sem kallaðir eru til starfa samkvæmt undanþágulistum eiga að sinna störfum sínum í samræmi við almennar starfsskyldur. Störfin skulu miðast við að tryggja lámarks öryggisþætti og öryggi skjólstæðinga og að engin verði fyrir beinum skaða af verkfallsaðgerðum.
Þeir aðilar sem ekki eru í verkfalli mega einungis sinna þeim störfum sem þeir eru vanir að sinna og engu öðru. Næsti stjórnandi eða samstarfsmaður má því ekki ganga í störf starfs félaga.
Upplýsingar um verkfallsvörslu er finna á skirfstofu stéttarfélagsins, trúnaðarmenn starfsmanna á hverjum vinnustað veita enn fremur upplýsingar.