Hagfræðingur BSRB um skýrslu vinnuhóps um nýtt húsnæðisbótakerfi

Vinnuhópur á vegum velferðarráðherra leggur til að tekið verði upp nýtt og gjörbreytt húsnæðisbótakerfi sem tryggir öllum sama rétt til fjárhagsstuðnings hins opinbera.„Með tillögum hópsins næst það fram sem BSRB hefur verið að berjast fyrir undanfarin ár – að jafna bótagreiðslur á milli ólíkra búsetuforma,“ segir Hilmar Ögmundsson, hagfræðingur BSRB, um nýja skýrslu vinnuhóps um húsnæðisbætur sem kynnt var í dag.
 

Hilmar var fulltrúi BSRB í nefndinni sem hefur starfað frá því í september á síðasta ári. Stærstu tíðindin sem felst í þessari skýrslu er lagt er til að leggja af húsaleigu- og vaxtabætur en þess í stað koma á sérstökum húsnæðisbótum.

„Markmið nefndarinnar var að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera milli ólíkra búsetuforma og stuðla að því að heimili eigi raunverulegt val á milli leigu-, búseturéttar- og eignaríbúða. Ef þessar tillögur ganga eftir er það stórt skref í rétta átt að því markmiði,“ segir Hilmar og bætir við: „Kannanir hafa sýnt að fjöldi fólks hér á landi sem er nú í eigin húsnæði vill frekar búa í leiguhúsnæði, en framboðið af því er ekki nægt. Fjárhagsstuðningur við  þá sem eiga sitt húsnæði hefur verið umtalsvert meiri en við þá sem leigja en þessar tillögur jafna rétt fólks á bótum á milli hinna ólíku búsetuforma og það hefur verið eitt af baráttumálum BSRB undanfarin ár.“

Hilmar bætir við að þótt tillögur vinnuhópsins gangi eftir sé hlutverki hins opinbera varðandi húsnæðismál hvergi nærri lokið.

„Með þessu eru réttur fólks til bóta jafnaður en vandamálið er samt enn að hér er einfaldlega ekki nægilegt framboð af leiguhúsnæði. Hið opinbera verður að koma að þeirri uppbyggingu með stofnun leigufélaga þar sem fólki gefst kostur á að leigja húsnæði til lengri tíma á sanngjörnu verði, svipað því sem gerist á Norðurlöndunum,“ segir Hilmar.

Mikil samstaða var á meðal nefndarmanna um að hafa nýja bótakerfið sem einfaldast en þó ekki hafi náðst samstaða um nokkur atriði sem tekin voru til skoðunnar í skýrslunni. „Vinnuhópurinn var ekki sammála um hvort skattfrjálsar ættu að koma til tekjuskerðingar húsnæðisbótanna. Það er skoðun BSRB að barnabætur, meðlög og námslán eigi t.d. ekki að telja til tekjuskerðingar en því miður náðist ekki samstaða um hvar tekjuskilgreiningin ætti að liggja. Eins hefði BSRB viljað sjá að þær grunnbætur sem lagðar eru til í skýrslunni hækki sjálfkrafa í framtíðinni þannig að þær haldi í við þróun í landinu. Samstaða náðist ekki um það atriði og því verða hækkanir í framtíðinni að koma að frumkvæði Alþingis. Að mati BSRB hefði verið hentugra að leggja til reglur um sjálfkrafa hækkanir,“ segir Hilmar að lokum.

Starfsmenntasjóður

Fylltu út formið til að sækja um