Ræða Karls R. Þórssonar form. STH á hátíðarfundi verkalýðsfélaganna í Hafnarf. á 1. maí 2012

Kæru félagar í verkalýðshreyfingunni og góðir gestir – til hamingju með daginn.
 
Hér í ræðu dagsins langar mig til að tæpa á ýmsum mikilvægum atriðum sem snerta bæði verkalýðsbaráttuna almennt og baráttu okkar hér í Hafnarfirði.

En áður en lengra er haldið er rétt að huga aðeins að rótunum og velta því fyrir sér hvers vegna   1. maí varð fyrir valinu sem verkalýðsdagurinn? Og svo, hvert sé gildi þessa dags.

Dagsetning verkalýðsdagsins á uppruna sinn í samþykkt alþjóðaþings sósíalista í París árið 1889, sem valdi deginum heitið „alþjóðlegur verkalýðsdagur“ og  alþjóðlegur frídagur verkafólks. Þarna í París árið 1889 lögðu Frakkar til að verkafólk notaði daginn til fjöldafunda og fylgdi eftir réttmætum kröfum meðal annars um átta stunda vinnudag.Valið á þessum degi féll líka vel að rótgróinni hefð í sunnanverðri Evrópu þar sem menn tóku sér oft frí þennan dag.

Það var hins vegar ekki fyrr en árið 1923 sem við Íslendingar fórum loksins að ráðum Frakka og lögðum fram kröfur okkar í kröfugöngu á 1. maí. Fyrir 40 árum síðan eða árið 1972 varð 1. maí svo loksins lögskipaður frídagur á Íslandi.

Í samtímanum skiptir dagurinn allt launafólk miklu máli og í liðinni viku var kastljósi fjölmiðla einmitt beint sérstaklega að verkalýðsdeginum og deilu félaga okkar við forsvarsmenn Smáralindar og Kringlunnar. En forsvarsmenn miðstöðvanna vilja hafa verslanir þar opnar á 1. maí rétt eins og verkalýðsdagurinn sé bara einhver venjulegur sunnudagur. Með slíkum áformum er verið að gjaldfella daginn okkar, sameiginlegan frídag vinnandi stétta. Svona hugmyndir minna  okkur rækilega á það að baráttu verkalýðshreyfingarinnar lýkur aldrei, þetta er endalaust verkefni og við verðum að muna að ekkert gerist af sjálfu sér í réttindabaráttunni.

Verkalýðshreyfing samtímans hefur ef til vill ekki verið nægilega áköf við að minna sífellt og endurtekið á gildi sitt og að koma bæði baráttunni og árangrinum á framfæri við félagsmenn á öllum aldri. Það er ekki nóg að eldri og reyndari félagar meðtaki. Við verðum líka að ná til þeirra yngri og líka yngstu kynslóðarinnar á vinnumarkaðinum. Sem er aldamótakynslóðin eða Y kynslóðin svokölluð sem er; tölvu, farsíma- og netkynslóðin, fædd er á árunum 1978-1996. Þessi kynslóð er nýlega farinn að láta til sín taka á vinnumarkaðnum. Rannsóknir sýna að þessi hópur vill fá mikla og góða þjálfun á vinnustaðnum, hefur sterka réttlætiskennd og ætlast til hærri launa, sveigjanlegri vinnutíma, lengra orlofs og síðast en ekki síst eðlilegs framgangs í starfi.

Þessi sjónarmið eru okkur alls ekki framandi því verkalýðshreyfingin hefur lengi barist meðal annars fyrir betra vinnumhverfi , símenntun, réttlæti og hærri launum. Okkur ber að fá sem flesta til liðs við verkalýðshreyfinguna, þessa kynslóð sem aðra. Við þurfum að virkja kraft fjöldans, bæði með tilliti til samtíðar og framtíðar.

En kannski höfðar hefðbundin dagskrá sem þessi hér í dag, ekki nægilega vel til fjöldans? Án þess þó að ég sé á nokkurn hátt að leggja það til að við breytum út af hefðinni. Þá er samt ef til vill tímabært að leita fjölbreyttari leiða til að ná til enn fleiri á þessum mikilvæga baráttudegi. Við megum nefnilega ekki gleyma því að verkalýðshreyfingin er ekki einsleitt fyrirbæri heldur fjöldahreyfing vinnandi stétta og aðeins saman náum við árangri.

Hér í Hafnarfirði, hefur 1. maí verið haldinn hátíðlegur frá árinu 1931 og frá 1944 höfum við lagt áherslu á kröfur okkar í kröfugöngunni um bæinn. Þar hefur einlita rauða fánanum stundum  verið ruglað saman við aðra hugmyndafræði og annan rauðan fána með gylltum einkennistáknum Sovétríkjanna sálugu og þeim mannréttindabrotum sem það ríki stóð fyrir. Nei, við skulum hafa það á hreinu að einliti rauði fáninn á sér allt aðra og mun dýpri merkingu sem rekja má til upphafs verkalýðsbaráttu. Hans sterkasta táknmynd er uppreisn gegn ranglæti. Hann táknar dagrenninguna og þýðir í reynd að nú sé nóg komið.

Já nú er nóg komið! „Þeir skulda mér og þér og þjóðinni allri – tóku allt handa sér – urðu Íslandi að falli“ segir í dægurlagatexa sem mikið heyrist þessa dagana og vísar þar til bankahrunsins og afleiðinga svonefnds góðæris.

Í skugga góðærisins hafa skýrslur verið skrifaðar, embætti verið stofnuð og réttarhöld verið haldin. En enginn, hvorki þeir pólitísku aðilar sem settu leikreglurnar, eftirlitsaðilar sem standa áttu vörð um almannahagsmuni, né þeir gráðugu sem hvað helst eru grunaðir um að hafa framið glæpinn, telja sig bera ábyrgð. Ekki vilja fjölmiðlarnir, fjórða valdið sem stýrði og stýrir umræðunni heldur axla sína ábyrgð.

Ef mælikvarði á siðferði hins Nýja Íslands felst í fréttum af hækkuðum mánaðarlaunum bankastjóra sem sumir hafa á bilinu 30-40 milljónir króna í árslaun. Þá fer hrollur um mann. Spyrja má, er brjálæðið og fyrringin að endurtaka sig?

En uppbygging Nýja Íslands gengur ansi hægt. Spyrjum bara þá atvinnulausu félaga okkar eða þá sem orðið hafa fyrir blóðugum kjaraskerðingum og sætt minnkuðu starfshlutfalli. Eða eldri borgarana. Þetta fólk nær oft ekki endum saman. Við skulum ekki gleyma því að jafnvel þó að aðeins lítið sé skorið af litlu þá er nánast EKKERT eftir.  

Við vitum að meðaltekju barnafjölskyldan í Hafnarfirði á í basli við að láta enda ná saman. Nær allt hefur hækkað. Svo ekki sé talað um smæstu bræður okkar og systur sem vinna á þeim  lágmarkstöxtum sem byggja á láglaunastefnu sem er þessu þjóðfélagi og þessu bæjarfélagi til háborinnar skammar. ÞESSU ÞARF AÐ BREYTA.

Eftir mesta fjármálafyllerí Íslandsögunnar, hefur venjulegt launafólk árið 2012 orðið fyrir 27% kaupmáttarrýrnun. Mestu kaupmáttarrýrnun frá seinna stríði segir í nýrri skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands. Þá sýna upplýsingar frá Hagstofunni að frá árinu 2008 og til dagsins í dag, að vara og þjónusta hefur hækkað um 34,9% á Íslandi.

Ég hef áhyggjur af því til framtíðar litið, hvernig við munum geta haldið aftur af verðbólgu og vöxtum með krónunni okkar götóttu. Þegar við ráðum ekki við neitt í lokuðu hagkerfi sem er bæði verndað af gjaldeyrishöftum og atvinnuleysi.

Ekki er staðan betri þegar kemur að húsnæðisliðnum en við búum við kerfi þar sem vextir eru háir og verðtrygging alsráðandi. Hér erum við mánaðarlega að tala um hreina og klára eignaupptöku og það af manna völdum og stjórnvöld virðast ráðalaus gagnvart þessum kerfisvanda.

Samkvæmt greiningu Seðlabankans hafa tæplega 21 þúsund heimili átt í vandræðum með að ná endum saman eftir hrun . Meira en fjórðungur barnafjölskyldna hefur átt í greiðsluvanda sem  jafngildir því að fimmta hvert barn á landinu hafi átt foreldra í greiðsluvanda.

Allar þessar fjármálalegu hörmungar, þrátt fyrir að fæstum okkar hafi í reynd verið boðið að veisluborðinu. En það er almenningur þessa lands, venjulegir launþegar sem skulu borga brúsann. Er það nema von þó margar, já of margar fjölskyldur hafi flúið landið bláa og freistað gæfunnar í einhverju norðulandanna þar sem velferðin er meiri og kaupmáttur annar.

Heimilunum má ekki blæða út, það er krafa verkalýðshreyfingarinnar.  Ef til vill finnst  bjargræði í breytingum á barna- og vaxtabótum. Lausnina þarf að finna.

Það væri óskandi að hjól atvinnulífsins fari nú að snúast hraðar og hjálpa til við uppbygginguna en það er stjórnvalda að skapa umgjörðina. Hjólin þurfa að fara að snúast, það er lykilkrafa verkalýðshreyfingarinnar.

En snúum þá umræðunni aftur heim til Hafnarfjarðar.

Atvinnuleysisvofan hefur sótt að félögum verkalýðsfélaganna  hér í bæ. Atvinnuleysi bæjarstarfsmanna er í sögulegu hámarki og atvinnuleysi meðal félagsmanna Hlífar er yfir landsmeðaltali. Félagsmenn hafnfirsku verkalýðsfélaganna hafa sætt uppsögnum, þurft að taka á sig kjaraskerðingar, verið skikkaðir í minnkað starfshlutfall, bæði vegna slæmrar fjárhagsstöðu bæjarins og annara fyrirtækja.

Auðvitað urðum við fyrir bankahruni sem breytti lánum fyrirtækja og sveitarfélagsins. En í nýlegri skýrslu Seðlabankans segir að sveitarfélög á jaðarsvæðum höfuðborgarsvæðisins hafi gert mjög óraunhæfar spár um fjölgun íbúa árin fyrir hrun og skipulagt of mikla nýja byggð og atvinnulóðir.

Er það nema von, því fyrir hrun ,virðist sem allra mikilvægasti mælikvarðinn á dug sveitarstjórnarfólks hafi falist í steinsteypu og lóðum sem svo yfirleitt var tekið að láni. En eftir sitja tómar lóðir, veggir frjálsíþróttahúss, kílómetrar af skuldsettu malbiki, ónotuð holræsi og ljósastaurar sem nýtast ekkert þegar einmitt er þörf á opinberri fjárhagslegri innspýtingu á samdráttarskeiðinu.

Á ýmsu hefur svo gengið í réttindabaráttu launaþega hér í bæ síðasta árið. Það er ekkert launungarmál að á þessu erfiðleikatímabili hafa átök átt sér stað vegna uppsagna. Sótt hefur verið harkalega að kjarasamningsbundum réttindum starfsmanna. En sem betur fer eru verkalýðsfélögin STH og Hlíf á vaktinni og hafa reynt að koma sínum félagsmönnum til bjargar.

Undanfarna mánuði  höfum við í STH horft til viðbragða samanburðarsveitarfélaga á okkar landshorni sem dregið hafa til baka þær kjaraskerðingar sem til komu vegna hrunsins. Fyrir liggja opinberar yfirlýsingar um það að bæjarsjóður Hafnarfjarðar hafi nú náð fjárhagslegri viðspyrnu. 

Hefur STH ritað bæjaráði bréf þar sem farið er fram á leiðréttingu og endurkomu þeirra launa og starfshlutfalla sem af okkar fólki var hrifsað í kjölfar hrunsins. 

Við getum ekki sætt okkur við það að félagsmenn okkar búi við lakari kjör en bæjarstarfsmenn samanburðarsveitarfélaga. Auðvitað vonumst við til að viðbrögð bæjaryfirvalda verði í réttu samhengi við hinn langa svartíma þeirra,  en þrír mánuðir eru liðnir frá því að við sendum frá okkur þessa réttmætu leiðréttingakröfu en pólitíska stjórnsýslan er víst enn að reikna. 

Um nokkurt skeið höfum við forsvarsmenn STH og Hlífar haft af því þungar  áhyggjur, að í einhverjum tilfellum hafi atvinnurekendur og opinberar stofnanir mögulega reynt að notfæra sér kreppuna til að skera of harkalega niður. Því starfsfólki er ætlað þrátt fyrir niðurskurð, lækkað starfshlutfall og undirmönnun, að leysa sömu verkefnin og fyrir hrun. Í ljósi atvinnuástandsins er fólki einfaldlega sagt að hlaupa bara hraðar.

Fræðimaður á sviði mannauðstjórnunar sagði í fyrirlestri sem haldinn var fyrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar fyrir skemmstu,  að áberandi væri hversu harkalega sum sveitarfélög hefðu pakkað saman í mannauðsstjórnun. Það er ekki nýr sannleikur að fagleg mannauðstjórnun og breytingastjórnun sem unnin er í sátt við starfsfólk, snýst um svo margt annað en kassalaga lögfræði. Það er einkar mikilvægt að hafa í huga þegar vandi steðjar að. Í dag kraumar nefnilega undir þreyta og óánægja og ef landið heldur áfram að rísa getur styttst í starfsmannaveltu sem er samfélaginu okkar alltaf kostnaðarsöm.

En kæru félagar í verkalýðsbaráttunni. Sumarið er komið og 1. maí er líka dagur vonar og við eigum þrátt fyrir allt von um að skaflar efnahagshrunsins muni brátt hjaðna líkt og aðrir skaflar. Og það er engin ástæða til annars en að við höldum vongóð inn í sumarið.

Það er hins vegar  mikilvægt að aðhalds verkalýðshreyfingarinnar gæti í þeirri uppbyggingu sem framundan er og verkalýðshreyfingin verður að vera þátttakandi í þeirri vegferð. 

Við skulum  ekki láta úrtöluraddir stöðva okkur, heldur halda áfram við að ná fram þeim árangri sem launafólk á sannarlega innistæðu fyrir.

Ef við stöndum saman þá eru okkur allir vegir færir, njótum dagsins og eigum ánægjulegan 1. maí.

Starfsmenntasjóður

Fylltu út formið til að sækja um